
Góðverkin kalla!
Sýnt í Leikhúsinu
Funalind 2
Góðverkin kalla! – eftir þrjú af höfuðskáldum Hugleiks – er nú loksins komið „heim“ eftir áratuga vinsældir í fjölmörgum uppfærslum.
Trúlega Hugleiks-legasta leikritið sem Hugleikur hefur aldrei (áður) sett á svið…
Frumsýning 15. mars 2025.
Ármann Guðmundsson, Sævar Sigurgeirsson og Þorgeir Tryggvason sömdu Góðverkin kalla! fyrir Leikfélag Akureyrar, sem frumsýndi það 1993. Síðan hefur það orðið eitt allra vinsælasta leikrit til uppsetningar hjá áhugaleikfélögum um allt land.
Nú er það loks sett á svið af Hugleik, í leikstjórn Ármanns og mannað einvala leikhópi.
Á Gjaldeyri við Ystu-Nöf er allt með friði og spekt. Íbúarnir taka virkan þátt í félagsstarfi þar sem kvenfélagið Sverðliljurnar og karlaklúbbarnir tveir; Dívans og Lóðarís, keppast við að láta gott af sér leiða.
Sjúkrahúsið í plássinu, sem fagnar bráðum 100 ára afmæli, hefur ekki farið varhluta af gjafmildinni og félögin hafa metnað til að toppa sig í vali á afmælisgjöf í tilefni af stórafmælinu.
En kannski er ekki allt sem sýnist. Hvenær gengur góðmennskan of langt? Er rétt að treysta Nonna Hefli í viðhaldinu? Hvað gerir eiginlega rúlluskautafélagið? Parket eða flísar? Hver hefur ekki séð Mary Poppins? Hvernig eru rækjur ættleiddar? Hvort ert þú Jökull eða Heiðar? Hefur þú séð pípuna mína?
Svör við sumum þessara spurninga er að finna í þessu frábæra leikriti, stútfullu af orðaleikjum, kómískum karakterum og dillandi sönglögum. Allt afskaplega Hugleikst.
Ekki láta þig vanta á Gjaldeyrina, leiðin þangað liggur gegnum Funalind 2 í Kópavogi.
Nokkrar ljósmyndir teknar á æfingum…








