Á 40 ára afmælisleikári bættust 11 reynsluboltar í hóp heiðursfélaga Hugleiks. Sex þeirra mættu á aðalfund og veittu nafnbótinni formlega viðtöku. Þau sjást hér með fulltrúum úr stjórn félagsins.
Leikfélagið Hugleikur tók til starfa 1984 og fagnaði 40 ára afmæli í apríl 2024.
Hugleikur er langlífasta og öflugasta starfandi áhugaleikfélag í Reykjavík, en á fjórum áratugum hefur félagið sett upp hátt í 50 leiksýningar í fullri lengd auk rúmlega 200 styttri verka sem ratað hafa á svið.
Eitt af aðalsmerkjum félagsins er að setja upp frumsamin verk eftir Hugleikara – enda hefur félagið getað sótt í hugarheima skapandi höfunda í sínum röðum allt frá stofnun.
Hugleikur þakkar fyrir sig!
Hátt í 1000 gestir * komu á fjórar sýningar á nýrri uppfærslu Jólaævintýris Hugleiks í desember 2023 og skemmtu sér næstum jafn vel og leikhópurinn.
* sumir komu oft
Af æfingu á Húsfélaginu eftir höfundahóp Hugleiks – frumsýnt vorið 2023
Hvernig tek ég þátt í Hugleik?
Það geta öll verið með í Hugleik. Það eru engar kröfur um reynslu eða inntökupróf – bara að hafa áhuga og láta sjá sig, til dæmis á námskeiði eða auglýstum samlestri.
Lifandi leikfélag er miklu meira en hópur leikara á sviði. Leikfélag snýst um ánægjuna af því að vinna í samstarfi við aðra, kveikja hugmyndir hvert hjá öðru og sjá eitthvað nýtt verða til. Það þurfa ekki öll sem taka þátt í leikstarfi að hafa áhuga á leiklistinni sem slíkri, enda fjölmörg önnur hlutverk sem þarf að sinna – allt frá skrifum, leikmynd og búningum til markaðsstarfs og framkvæmdastjórnar.
Sjá nánar um hvernig þú getur tekið þátt.
Æfinga- og félagshúsnæði
Félagið hefur aðsetur að Langholtsvegi 109-111 sem það nýtir til æfinga og félagsstarfs. Gengið er inn í portinu baka til.
Hugleikurum og öðrum stendur til boða að leigja húsnæðið á mjög sanngjörnu verði, til dæmis fyrir námskeið eða aðrar samkomur.
Áhugaleikfélag án fastra tekjustofna reiðir sig auðvitað á vinnuframlag félaga sinna og stuðning velgjörðarmanna til að halda skútunni á floti. Unnið er að skráningu Hugleiks sem almannaheillafélags og leikfélagið er þakklátt öllum sem sjá sér fært að styðja við starf félagsins með beinum eða óbeinum hætti.
Þau sem hafa áhuga á að styðja Hugleik eru hvött til að hafa samband við formann (gegnum netfangið hugleikur@hugleikur.is) og ræða mögulegt samstarf.